fbpx
„Af hverju er mosi í garðinum mínum?“

„Af hverju er mosi í garðinum mínum?“

Grænn og fallegur garður er markmið flestra garðeigenda, en hvað er hægt að gera þegar mosi virðist ætla að ná yfirhöndinni?  Áður en farið er í róttækar aðgerðir þá borgar sig að finna út hvað veldur, því annars er hætta á að hringrásin haldi áfram.  Mosinn sjálfur er ekki að drepa grasið, heldur er hann birtingarmynd annars vandamáls og þarf þá að skapa grasinu betri vaxtarskilyrði.  

Nokkur atriði sem hafa áhrif:

  • Súr jarðvegur
  • Næringarsnauður jarðvegur
  • Þjappaður jarðvegur/of lítil loftun
  • Mikill skuggi
  • Of mikið eða of lítið vatn
  • Annars konar álag

 

Sýrustig jarðvegsins hefur mikil áhrif!



Lágt sýrustig í jarðvegi er ekki ákjósanlegt fyrir grasvöxt og algengara vandamál en flesta grunar.  Margir passa að bera áburð árlega á grasblettinn, en átta sig ekki á mikilvægi þess að dreifa reglulega kalki.

Ef jarðvegurinn er súr á gras erfitt með að nýta næringarefnin sem er að finna í honum.  Ofan á það bætist að ef dreift er meiri hefðbundnum áburði þá getur það valdið því að sýrustigið lækkar enn frekar.  Mosa líður vel í bæði súrum og hlutlausum jarðvegi og hafa þessar aðstæður því ekki neikvæð áhrif á vöxt hans.

VIÐ MÆLUM MEÐ:

 

Gras vex illa ef skortur er á næringarefnum


Til að tryggja vöxt og heilbrigði þarf grasið aðgang að réttum næringarefnum.  Áburður sem inniheldur köfnunarefni (N), fosfór (P) og kalí (K) ásamt snefilefnum hjálpar til við að auka vöxt og heilbrigði grasblettarins.  Það er þó vert að taka fram að til að tryggja að grasið geti nýtt næringarefnin þá verður sýrustig að vera í lagi.

VIÐ MÆLUM MEÐ:

 

Þjappaður jarðvegur hleypir illa lofti og vatni í gegnum sig


Þegar jarðvegurinn er mjög þjappaður eiga loft og vatn erfitt með að komast ferða sinnar um hann.  Við þessar aðstæður fæst lítill ávinningur við að dreifa áburði, þar sem hann mun að mestu leiti liggja ofan á grasinu og lítill hluti skila sér til rótanna.  Í of þéttum jarðvegi eiga ánamaðkar og aðrar gagnlegar lífverur líka erfitt með að komast um.  Góður jarðvegur er 40-60% loft og vatn.

Annað vandamál sem getur líka komið í veg fyrir loftun jarðvegsins og að næringarefni skili sér til rótarkerfisins, er ef garðaúrgangur (t.d. fallin lauf eða slegið gras) liggur ofan á grasblettinum.  Það er mikilvægt að raka slíkt í burtu til að auðvelda að vatn og næringarefni skili sér til grassins.

 

Grasið fær ekki nægilega mikið sólarljós


Mosa líður vel í skuggsælum svæðum, á meðan gras þrífst ekki jafn vel þar.  Fyrirferðamikil tré og runnar geta skyggt á grasblettinn og þá þarf annað hvort að klippa af þeim til að hleypa sólarljósinu í gegn, eða lyfta greinunum og binda þær uppi.  Mosi þarf þó ekki skugga til að þrífast, en þar sem gras vex illa á mosi auðvelt með að ná yfirhöndinni.

 

Of mikið eða of lítið vatn


Ef grasið er byrjað að gulna, þorna og brotnar þegar gengið er í því, þá þarf að vökva.  Of mikið vatn hefur líka neikvæð áhrif á grasið.  Ef jarðvegurinn er mjög þéttur þá safnast vatn ofan á honum og það fer illa með grasvöxtinn.

 

Annarskonar álag sem drepur gras


Það geta verið aðrar ástæður fyrir því að gras er ekki að vaxa nægilega vel, t.d. kal á grasi eftir vetur eða  of mikill umgangur fólks og dýra.

 

Hvað svo?


Þegar búið er að greina hvað veldur mosavextinum er hægt að fjarlægja hann (t.d. með mosatætara eða hrífum).  Það gæti tekið nokkrar umferðir að ná meirihlutanum af honum en ólíklegt er að hann náist allur.  Ef grunnvandamálið hefur ekki verið lagað eru miklar líkur á að hann komi upp aftur.

Ef aðeins litlir blettir verða eftir þar sem mosinn hafði áður verið, þá er nóg að sá grasfræjum.  Hinsvegar ef vandamálið var orðið meira þá gæti þurft að tyrfa stærri svæði, eða allan blettinn, upp á nýtt.

Submit a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Afhending

Hér erum við

Hafa samband