fbpx
Skjólnotkun hrossa í rigningu og roki

Skjólnotkun hrossa í rigningu og roki

Hvar útigjöf er staðsett skiptir máli

Í slæmum veðrum er vert að kanna aðgengi hrossa að skjólum.  Hvort sem skjól eru manngerð eða náttúruleg, þurfa þau að verja hrossin gegn vindum úr hörðustu áttum og vera nægilega stór svo öll hrossin geti notið góðs af.
Þegar hross eru á útigjöf þarf að passa að ekki sé gefið of langt frá skjólum.  Þau sem efst eru í virðingastiganum, ráða því hvar stóðið heldur sig og velja auðvitað í flestum tilfellum að vera þar sem heyið er.  Veðurfarið hefur hinsvegar ekki sömu áhrif á forystuhrossin og önnur, þar sem þau lægri settu í stóðinu þurfa iðulega að standa þeim megin sem veðurharkan er mest og veita hinum skjól.

Til að hlífa sem flestum hrossum í stóðinu við veðurhörku er því betra að gefa nálagt skjólum.

Hrossin þurfa að vera undirbúin fyrir veturinn

Nýleg rannsókn, sem var framkvæmd hjá Bioforsk í Noregi, sýndi fram á það að ástand hrossa að hausti, skiptir meira máli heldur en erfðir og kyn, þegar kemur að því að spá fyrir um hversu vel þau þola kólnandi veður.
Rannsókn var gerð á 22 hrossum af mismunandi kynjum (bæði heit- og kaldblóðskyn) yfir 22 daga tímabil.  Þau höfðu aðgang að færanlegu skýli með þrjá möguleika. 1) að vera úti, 2) fara inn í skýli eða 3) fara inn í upphitað skýli.  Tilgangurinn með því að bjóða upp á upphitað skýli, var sá að sjá hvort veðurfarið hafði það mikil áhrif á jafnhitabil hrossanna, að óupphitað skýli yrði ekki nóg.

Þykkt feldar hafði mikil áhrif

Á meðan ransókninni stóð upplifðu hrossin mismunandi veðurgerðir og hitastig og yfir tímabilið var skjólval þeirra skráð sem og hvort einhver merki væru um að þau væru í erfiðleikum með að stjórna líkamshita sínum.  Hestarnir stóðu úti 88% af rannsóknartímanum, á meðan það var þurrt og kalt.  Þeir hestar sem höfðu þykkasta vetrarfeldin (burtséð frá kyni og holdastigi), voru líklegri til að standa úti svo lengi sem það var þurrt, þrátt fyrir kulda.

Líkt og búist var við sóttu hestarnir í skjól aðeins þegar það var kalt, vindur og rigning.  Þá voru heitblóðshestarnir líklegri til að sækja í upphitaða skýlið heldur en kaldblóðshestarnir.  Rok og rigning gerir hestunum erfitt fyrir að viðhalda jöfnum líkamshita, en varmatap, fitubirgðir undir feldinum ásamt þykkt feldsins er tengt kyni hestanna.

Rannsóknarmennirnir töldu þó erfitt að fullyrða þegar kemur að skjólþörfum hesta yfir vetrartímann:

„Vöðvamikill arabískur hestur með þykkan vetrarfeld getur til dæmis verið betur settur til að þola vetrarkulda heldur en gamall, þunnur íslenskur hestur, þó svo að einn sé af heitblóðskyni og hinn af kaldblóðskyni.“

Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að hver hestur er einstakur og að eigendur hesta eigi ekki að gera ráð fyrir að hestur annað hvort þoli eða þoli ekki vetrarkulda einungis út frá kyni og útliti hans.  Það eru margir áhrifaþættir, svosem fóðurbreytingar, efnaskipti, hvort feldur sé klipptur/rakaður og þjálfun sem hafa áhrif á hvernig hestur þolir hitabreytingar, rigningu og rok.

Feldurinn einangrar

Samkvæmt lögum eiga öll hross sem eru í útigangi frá 1. október til 1. júní að hafa aðgang að skjóli, ef ekki er náttúrulegt skjól til staðar skal útvega manngert skjól.  Feldurinn er misþykkur eftir einstaklingum og hárin mislöng.  Í miklum kulda standa hárin út líkt og þegar fólk fær gæsahúð og á milli háranna myndast svo lag af lofti sem einangrar. Þegar það er kalt og vindur, sérstaklega ef umhverfið er rakt, getur það skapað sérstakt kuldaálag fyrir hestana. Ef feldur hestsins blotnar tapar hann enn meira einangrunargildi sínu sökum þess, að hárin límast saman og loft getur ekki verið á milli þeirra.  Þar af leiðandi skiptir skjólframboð miklu máli fyrir hrossin í blautu og köldu veðri.

Heimildir:
Preference for shelter and additional heat in horses exposed to Nordic winter conditions
. Equine Veterinary Journal.
Hrefna B. Ingólfsdóttir og Hrefna Sigurjónsdóttir. (2008). The benefits of high rank in the wintertime – A study of the icelandic horse. Applied animal behaviour science, 2008(114), 485-491.

Submit a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Afhending

Hér erum við

Hafa samband