fbpx
Fóðrun hrossa til að auka þyngd og bæta líkamsástand

Fóðrun hrossa til að auka þyngd og bæta líkamsástand

Fyrsta skrefið í því að auka þyngd hests er að auka aðgang að gróffóðri. Gróffóður er náttúrulegasta fæðan fyrir meltingarveg hestsins og getur útvegað honum töluverða aukningu á hitaeiningum.

Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því að eigandi vilji auka þyngd hests.  Til dæmis að hesturinn tapaði þyngd yfir veturinn vegna takmarkaðs aðgangs að fóðri, eða vegna þess að hann fóðrast illa.  Einnig getur hesturinn verið að jafna sig eftir veikindi, aðgerð eða hefur verið með orma.  Stundum er keyptur hestur í því ástandi að hann vantar fyllingu yfir rifbein og lend, eða að hann er vannærður.

Hestar ættu að vera í holdstigum 2,5-3,5 en það fer eftir aðstæðum.  Ef hestur er holdstigaður undir 2,5 þarf að auka fóðrun.  Stundum þarf að bæta ástand á merum sem eiga erfitt með að festa fyl (þær eiga ekki að holdastigast yfir 4).

Hestar sem eru holdstigaðir við 1-1,5 eru í hættulegu ástandi, aðallega vegna þess að skortur á orku hjá hesti í þessu ástandi er afleiðing takmarkaðrar næringarinntöku, svo sem skortur á próteini og vítamínum.  Í þessum tilvikum er mælt með að leita ráðlegginga um fóðrun hjá dýralækni eða hestafræðingi.  Ef þú ert óviss um forsögu hestsins, þá er viturlegt að byrja hægt og rólega, og auka svo fóðrunina smám saman á nokkrum dögum.  Nauðsynlegt er að muna að gróffóður er undirstaða fóðrunar hrossa, þar af leiðandi er næringarríkt, gott gróffóður ákjósanlegast.  Kjarnfóður skal gefa í litlu magni til að byrja með og fara varlega í að auka skammtinn, til að gefa meltingarveginum (og örverum í ristlinum) tíma til að aðlagast.  Í einstaka tilfellum eru hestarnir í svo slæmu ásigkomulagi að þeir eiga í vandræðum með að éta og jafnvel standa.  Í þeim tilvikum getur verið þörf á næringu í æð.

Sem betur fer er það oftast tilfellið að grannir hestar eru aðeins að brenna fleiri hitaeiningum en þeir eru að fá í fóðri, og þar af leiðandi auðvelt að bæta úr því.
Það er gífurlega mikilvægt að muna það að allar breytingar á fóðrun hrossa eiga að gerast hægt, það á líka við þegar auka á við hitaeiningar.

Orkufræði þyngdaraukningar

Það eru til mjög takmarkaðar upplýsingar um orkuþörf (eða hversu margar hitaeiningar) hestur þarf til að auka þyngd sína.  Einnig er ekki þekkt hvort hestur þurfi sama magn af hitaeiningum til að fara úr holdastigi 2 upp í 2,5, og þarf til að fara úr 3 upp í 3,5.  Það að þyngja hest er þolimæðisvinna og tekur tíma áður en sjáanlegur árangur næst.

Ein leið til að ákvarða fóðurþörf hests er að reikna þörfina út frá þyngd hestsins, eða skoða núverandi fóðrun og einfaldlega bæta við fleiri hitaeiningum.  Gott er þó að minna á að hröð þyngdaraukning er ekki ákjósanleg.

Fóðurval fyrir þyngdaraukningu

Ef við skoðum þær fóðurgerðir sem í boði eru til að auka hitaeiningafjölda í fóðrun hrossa, þá sjáum við að mismunandi fóður gerðir hafa mis mikið af meltanlegri orku pr kg.  Kjarnfóður er orkuríkara en gróffóður og olía enn orkuríkari.

Hvernig hrossið er fóðrað hefur áhrif á hversu hratt það bætir á sig þyngd, en það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.  Til dæmis munu flest hross ekki vilja éta olíu í lítra tali, svo ekki sé talað um „glansandi“ skítinn sem birtist ef hross innbyrðir meira en 2 bolla á dag (glansandi skítur er ekki endilega slæmur, en gefur til kynna að upptakan sé ekki næg á olíunni).

Hámarks átgeta margra hrossa er líka einungis 3% af eigin líkamsþyngd (eða minna), þau munu ekki éta meira en það!  Annað sem er vert að hafa í huga er að mikil kjarnfóðurgjöf (sérstaklega á fóðri sem er ríkt af sterkju og sykri) getur valdið meltingarvandamálum eins og hrossasótt eða efnaskiptasjúkdómum eins og hófsperrur og insulínónæmi.  Þar af leiðandi, þó kjarnfóður hafi hærra gildi fóðureininga, þá borgar sig ekki að gefa mikið magn af því í þeim tilgangi að auka þyngd hestsins.

Fyrsta skrefið í því að auka þyngd hests er að auðvelda aðgengi hans að gróffóðri.  Þetta hefur nokkra kosti og er til dæmis gott og náttúrulegt fyrir meltingarveg hestsins, og getur útvegað honum töluvert meira magn hitaeininga.  Ef hesturinn hefur étið allt gróffóðrið þegar kemur að næstu gjöf má íhuga að auka við hverja gjöf.  Ef hægt er þá er best að hrossið hafi frjálsan aðgang í gróffóður.  Það gefur hestinum einnig tækifæri til að uppfylla náttúrulega þörf til beitar og er hann þá ávalt með eitthvað í maganum og meltingarveginum.

Sumir hestar munu hinsvegar ekki éta meira gróffóður þó það sé í boði.  Í þeim tilfellum getur hjálpað að bjóða þeim til dæmis grasköggla.  Þeir eru í rauninni bara hey, en á öðru formi, og með þeim er oft hægt að „plata“ hestinn til að halda að hann sé að fá einhverskonar kjarnfóður.  Vert er þó að hafa í huga að fyrir eldri hesta, þá getur verið erfitt að borða harða köggla og getur borgað sig að bleyta í þeim til að hlífa tönnunum þeirra.

Ef aukið magn gróffóðurs er ekki nóg til að auka þyngd, þá getur verið þörf á því að skoða aðrar orkuuppsprettur.  Olía getur líka verið góð og auðveld leið til að auka hitaeiningafjölda fóðursins.  Olía hefur meira en tvöfalldan hitaeiningafjölda á við kolvetni, þannig að hún er mjög orkumikil.  Flest allar olíur eru nokkð jafnar þegar kemur að orkuinnihaldi, þar af leiðandi skiptir ekki öllu máli hvernig olía er gefin, ef ekki er verið að leitast eftir fleiri atriðum en orku.

Munurinn á milli mismunandi olía liggur í efnasamsetningu þeirra, fjölda tvöfalldra tengja á milli kolefna og hvar þessi tengi eru staðsett.  Auk þess að sjá hestinum fyrir hitaeiningum, geta omega-3 fitusýrur (eins og finnast í fiski eða hörfræ olíu) haft góð áhrif á ónæmiskerfið og feld.  Einn bolli af olíu (250 ml) inniheldur u.þ.b. 2,3 Mcal af orku.  Sumir hestar eru ekki hrifnir af olíu og getur skipt máli hvaða olía er gefin.  Olíu skal gefa í litlu magni til að byrja með og blanda hana með öðru fóðri til að fá hestinn til að éta hana frekar.

Ef annað gengur ekki, þá þarf að gefa kjarfóður til að auka hitaeiningamagn í fóðri.  Betra er að orkan sé til komin úr fitu og trefjum, en úr sterkju og sykri.  Ef það þarf að gefa aukið magn kjarnfóðurs þá getur borgað sig að fjölga gjöfum.  Sem dæmi, ef aðeins er gefið tvisvar á dag, þá getur fóðurskammturinn hvort skipti verið orðinn frekar stór (sem gæti leitt til meltingarvandamála eða slakari nýtingu).  Það að auka fóðurgjöfum upp í þrjár til fjórar (eða fleiri) á dag þýðir að hver gjöf er minni og nýting mögulega betri.

Ef hestur í þjálfun er ögn þunnur, þá er hann mögulega að brenna fleiri hitaeiningum en hann er að ná að innbyrða.  Hitaeiningaþörf til viðhalds verður meiri þegar hestur er í þjálfun.  Ef það á að auka þyngd hestsins þarf að hafa það í huga að sjá fyrir viðhaldsþörf og umfram það.

Sumir hestar vilja einfaldlega ekki éta, eða eru vandlátir á fóður (ef búið er að athuga hvort áhugaleysi á fóðri sé ekki vegna lélegra tanna, magasára o.s.frv.).  Í þeim tilvikum gætu eigendur þurft að finna nýjar lausnir.

Þó sykurríkt fóður geti valdið vandræðum með glúkósa og insúlín hlutföll, þá er það mjög lystugt.

Vísindin og fóðurfræði gætu þurft að lúta í lægra haldi og eigandinn að gefa hestinum bara það sem hann vill éta.  Til dæmis, á meðan sykurríkt fóður gæti valdið vandræðum með glúkósa og insúlín hlutföll, þá er það mjög lystugt fyrir hestum.  Sykurríkt fóður og sykursjokkið sem því fylgir, getur hinsvegar gert hestana heita og æsta, þar af leiðandi eyða þeir meiri orku og getur það unnið á móti þeim auka hitaeiningum sem hesturinn fær í fóðrinu.  Lúserna getur verið hentugur kostur fyrir suma hesta (ef passað er upp á umfram próteinmagn) þar sem það er mjög lystugt.  Í flestum tilfellum þarf að prófa sig áfram, en það þarf að muna að byrja smátt að gefa nýtt fóður og það að fita hest er eitthvað sem tekur tíma.  Það eru til einhverjar tilbúnar blöndur sem eru hannaðar til þess að auka þyngd hesta.  Þær eru mögulega dýrar, en eru oftast lystugar og það getur borgað sig að prófa þær.

Burt séð frá því hvaða fóður er valið, þá ætti heildarfóðrunin að sjá hestinum fyrir öllum sínum næringarþörfum.  Ákjósanlegast er að orka sé það eina sem er umfram viðhaldsþörf í fóðrun grannra hrossa.  Það er þó erfitt að auka aðeins orku í fóðrun.  Sem dæmi, ef auka á hitaeiningamagn með aukinni gróffóðurgjöf, þá er einnig verið að auka próteingjöf og sum vítamín og steinefni.  Hestaeigendur ættu að skoða öll þau næringarefni sem þarf, og passa að sjá hestum fyrir þeim öllum.

Það eru einhverjar vangaveltur uppi um hvort það að auka hitaeiningamagn án þess að auka önnur næringarefni geti valdið vandræðum; það er eitthvað sem er mikilvægara í fóðrun hrossa í vexti heldur en fullorðinna hrossa.

 

Höfundur:  Shannon Pratt-Phillips, MSc, PhD

Submit a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Afhending

Hér erum við

Hafa samband